Your cart is currently empty!
Alþjóðlega líftæknifyrirtækið Algalif mun á næstu árum fjárfesta hér á landi fyrir sem nemur 2,2 milljörðum, en það hefur þróað og framleiðir fæðubótarefni. Orri Björnsson er í forsvari fyrir fyrirtækið hér á landi, en hann hefur unnið í íslenska lyfjageiranum síðustu 20 ár, meðal annars hjá Actavis. Hann segir að aðstæður hér á landi séu hagstæðar fyrir uppbyggingu líftæknifyrirtækja, sérstaklega varðandi kostnað og hreinleika. Þó sé fjárfestingaumhverfið hindrandi og skattar og reglugerðir geti einnig fælt frá.
Uppbygging á næstu árum
Uppbygging fyrirtækisins hér á landi mun hefjast í lok þessa árs eða á því næsta, en það er á síðustu metrunum með fjárfestingasamning við íslenska ríkið. Orri segir í samtali við mbl.is að á næsta ári verði stærstur hluti starfseminnar settur upp og vonast hann til að um 20% framleiðslunnar hefjist það ár. Árið 2015 er svo áformað að auka framleiðsluna enn frekar og ef allt gengur að óskum verður farið í stækkun árið 2016.
Heildarfjárfesting verkefnisins er um 2,2 milljarðar, en Orri segir að það sé helst í formi tækja og búnaðar, sem og þróunarkostnaðar. Hann segir að ef farið verði í aukna uppbyggingu seinna meir kalli það svo á frekari fjárfestingu, en hún kemur öll frá útlöndum. Hann segir ekki tímabært að gefa fjárfestana upp að svo stöddu, en segir þá vera alþjóðlega, fyrst og fremst frá Evrópu, en einnig frá Bandaríkjunum.
Vilyrði fyrir stærri lóð
Gert er ráð fyrir að um 25-30 manns muni vinna við framleiðsluna í upphafi, en eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku verður stór hluti þeirra hámenntuð störf. Orri útilokar þó ekki að sú tala muni aukast enn frekar þegar fram líða stundir og bendir hann þar á mögulega stækkun á næstu árum, en fyrirtækið hefur þegar fengið vilyrði fyrir stærri lóð á Ásbrúarsvæðinu. Fyrst um sinn mun fyrirtækið þó leigja húsnæði af Kadeco, þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar.
Hagstætt umhverfi hér á landi
Meðal ástæðna fyrir því að Ísland varð fyrir valinu eru að sögn Orra hagstæð skilyrði hér á landi. Nefnir hann að kostnaður við þróun hér sé hagstæður, meðal annars þar sem fyrirtækið þurfi töluvert af raforku og vatni, en hvort tveggja sé tiltölulega ódýrt hér á landi. Þá nefnir hann einnig að fyrirtækið þurfi að verjast mengun í sinni þróun, en það sé mun auðveldara hér á landi en í mörgum öðrum löndum þar sem hiti er um og yfir 25°C á sumrin. Að lokum segir hann vissan grunn innan fyrirtækisins vera frá Íslandi og það þekki því inn á íslenskar aðstæður.
Algalif hefur verið í viðræðum við stjórnvöld um fjárfestingasamning með ívilnunum, en Orri segir að það sé í formi afslátta af fasteignagjöldum og tryggingagjöldum. Þá muni fyrirtækið einnig sækjast eftir endurgreiðslu á þróunarkostnaði, eins og er í boði fyrir önnur nýsköpunarfyrirtæki. Þetta segir hann að hafi vegið þyngra í ákvörðun um að byggja upp fyrirtækið hér á landi en fjármagnshöft, skattar og sveiflukenndara efnahagsástand en gerist í mörgum öðrum löndum.
Eigendur áður verið í dreifingu og smásölu
Orri segir að aðaleigendur fyrirtækisins hafi mikla reynslu af dreifingu og smásölu tengdri líftækni og þeir hafi orðið varir við skort á heimsmarkaði á vissum vörum. Þannig hafi þeir ákveðið að grípa tækifærið og stokkið til og hafið þróun á vörunni fyrir nokkru. Nú sé aftur á móti komið að framleiðslunni og hagstæðast hafi þótt að hefja hana hér á landi. Orri segir að seinna meir verði einnig farið í frekari þróunarvinnu og vonast er til þess að fyrirtækið muni framleiða fleiri vörur innan tíðar.
Hreinleikinn á Íslandi laðar að líftæknifyrirtæki – mbl.is